Saga

Saga Félags landfræðinga

Nokkur orð um fyrstu á Félags landfræðinga

Kennsla til BA prófs í landafræði við Háskóla Íslands hófst haustið 1951, með kennslu Ástvaldar Eydal, en einnig kenndi Sigurður Þórarinsson frá 1952. Landfræðin var kennd í heimspekideild til þriggja stiga eins og aðrar greinar þar, en til að ná BA prófi þurfti 5 stig. Ýmsir bættu þá við mannkynssögu og jafnvel viðskiptafræðum til þess að ljúka prófinu. Fljótt breyttist þó staða landfræðinnar. Ástvaldur flutti til Bandaríkjanna 1958 og lauk doktorsprófi í hagrænni landfræði árið eftir frá University of Washington í Seattle og kenndi síðan við San Francisco State University til 1974. Ástvaldur lést 1984. Þegar kennsla hófst í raungreinum við Háskóla Íslands 1969, var landfræðin flutt til og kennd samhliða jarðfræði og líffræði til B.Sc. prófs. Um þetta leyti var enginn sem hafði lagt stund á landfræðinám sem raungrein á 20. öldinni allt frá dögum Þorvaldar Thoroddsen og má segja að langt bil hafi orðið í kennslu og rannsóknum í landfræði sem raungrein frá þeim dögum sem Þorvaldur fór um landið. Saga Þorvaldar er ítarlega sögð í fjórum bindum Landfræðisögu Íslands. Þegar kennsla til B.Sc. prófs hófst við HÍ voru þau sem fyrst kenndu landfræði Sigurður Þórarinsson, Guðrún Ólafsdóttir, Gylfi Már Guðbergsson og Guðmundur Þorláksson. Þau eru vel kunn fyrir sín skrif og fræðastörf, en sérstaklega þeir tveir síðasttöldu eru kunnir almenningi þar sem þeir skrifuðu margar bækur um landfræði fyrir grunnskóla landsins.

Fyrstur til að útskrifast með B.Sc. próf í landfræði var Ólafur Ö. Haraldsson, en hann lauk prófi í maí 1972 og fór í kjölfarið í framhaldsnám til Brighton á Englandi. Í kjölfar Ólafs komu þeir Bjarni Reynarsson, Sigfús Jónsson, Tryggvi Jakobsson og Þorgeir Ástvaldsson ári síðar. Bjarni og Sigfús luku síðar doktorsprófi sitthvorumegin Atlantsála, sá fyrri í Ameríku 1980 en sá síðari í Englandi 1981.

Þessir sem fyrst útskrifuðust frá HÍ urðu til þess að stofan félagsskap um landfræði. Þannig voru Ólafur Ö. Haraldsson, Sigfús Jónsson og Bjarni Reynarsson allir í stjórn Landfræðifélagsins frá stofnun þess þann 23. apríl 1979. Sigfús Jónsson var meðstjórnandi en jafnframt ritstjóri og ábyrgðarmaður Landabréfsins, sem var fréttabréf Landfræðifélagsins frá stofnun. Bjarni var varaformaður, en fyrsti formaður félagsins var Eggert Lárusson. Hann lauk námi 1974 og lagði stund á framhaldsnám í Durham í Englandi. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Guðrún H. Guðmundsdóttir, ritari. Hún lauk námi 1979 og fór í framhaldsnám til Parísar. Sigríður Hauksdóttir, gjaldkeri. Hún lauk námi 1981. Ólafur H. Óskarsson var meðstjórnandi. Þessi stjórn hélst fram að aðalfundi 21. apríl 1980 en þá var stokkað upp og aðeins Eggert, Sigríður og Sigfús héldu sínum stöður aðrir báðust undan endurkjöri en það gerði einnig Eggert en sat áfram að áeggjan fundarmanna.

Verkefni fyrstu stjórnar var skipan starfsnefnda um ýmis þau mál sem efst voru á baugi innan landfræðinnar. Fyrsta starfsnefnd sem stjórnin skipaði fjallaði um stöðu landfræðinnar innan grunnskólanna, en svo virtist sem draga ætti úr vægi hennar og þynna út innan almennrar samfélagsfræði. Mikið var deilt um málið við menntamálaráðuneytið og unnu margir landfræðingar þarft starf í að búa svo um hnútanna að landfræðin héldist sem sér grein innan grunnskóla. 1987 var svo gengið frá að landfræðikennsla innan grunnskóla yrði efld ásamt sögukennslu á efri stigum. Var talið með þessu væri búið að tryggja landfræðinni sess þar, en næsta mál var um framhaldskólanna. Þar var skortur á kennsluefni áþreifanlegur og þegar verið bent á málþingi sem Landfræðifélagið stóð fyrir í maí 1984. Óttar Ólafsson var stjórnarmaður.

Þá vöntun sem blasti við félagsmönnum í nýstofnuðu félagi á frambærilegum kennslubókum fyrir efri stig grunnskóla og þá sérstaklega framhaldsskóla var reynt að leysa með allsérstæðum hætti. Þannig var ráðist í að sækja um laun úr Norræna þýðingarsjóðnum til að þýða danska bók um Ísland sem gefin var út af Gyldendal. Hugmyndin var að ef félagsmenn fengust til að þýða og ganga frá bókinni í sjálfboðavinnu væri hægt að nota launin sem greidd yrðu úr sjóðnum til að standa að útgáfu tímarits um landfræði, sem var draumur margra félagsmanna. Bókin kom út en með nokkru öðru sniði en áformað hafði verið. Gyldendal stóð í vinnslu 2. útgáfu þegar hugmyndin kom fyrst fram. Var sú útgáfa tvöfalt lengri en sú sem félagsmenn höfðu í huga og gekk því seint að ganga frá þýðingum og texta til prentunar, sem og að finna útgefanda á Íslandi. Undir lok árs 1983 hyllti þó undir útgáfu bókarinnar í vönduðu fjölriti á árinu 1984 og var þá fullbúin 1985 í útgáfu Iðunnar sem mundi taka allar sölutekjur uppí útgáfu og prentkostnað. Bókarþýðingin varð þannig ekki til þess að draumur félagsmanna um fagtímarit rættist.

Ritnefnd hafði verið skipuð 12. ágúst 1980 fyrir þetta fagtímarit og var stefnt að fyrstu útgáfu snemma árs 1981. Leiðbeiningar til höfunda voru gefnar út í Landabréfi 1980 (3. tbl.) og má segja að tímaritið hafi tímabundið litið dagsins ljós, reyndar enn gefið út sem fréttabréfið Landabréf , frá 1981 til 1984 og hafði það að geyma ýmsar greinar landfræði Íslands frá mörgum sjónarhornum. Má segja að nokkur dampur hafi verið í þeirri útgáfu á þessum árum og stofnendur félagsins og frumkvöðlar þess voru í forsæti útgáfunar, fyrst Sigfús en síðar Bjarni.

Félag Landfræðinga var stofnað 5. nóvember 1986 en þar var á ferðinni félagsskapur háskólamenntaðra landfræðinga, á meðan aðild í Landfræðifélaginu var aðild öllum velkomin. Tilgangur félagsins var að stuðla að eflingu fræðigreinarinnar. Landpósturinn, fréttabréf Félags landfræðinga kom fyrst út sumarið 1989. Strax hófst samvinna stjórna Félags landfræðinga og Landfræðifélagsins og var eitt fyrsta samvinnuverkefnið að koma saman heildstæðu landfræðingatali í anda þess sem hafði verið gefið út í Landabréfi 1981 (1 tbl.).