Fyrir höfunda / For authors

Leiðbeiningar fyrir höfunda

Landabréfið er tímarit Félags landfræðinga. Það kemur út árlega. Í því eru birtar lengri fræðilegar greinar (allt að 8000 orð að lengd), styttri greinar (sjónarhorn og umræður), ritdómar og annað efni sem snertir landfræði efni og störf landfræðinga. Lengri fræðilegar greinar eru ritrýndar.

Tungumál.  Efni má vera á íslensku eða ensku. Fræðilegum greinum skal fylgja ágrip á bæði íslensku og ensku, ásamt 4–6 lykilorðum og titli á báðum málum.

Skil efnis.  Efni skal skilað til ritstjóra á stafrænu formi. Myndir skulu annað hvort settar á sinn stað í textanum eða auðkenndar þannig að ekki fari á milli mála hvar þær eiga að birtast. Frumskrár stafrænna mynda þurfa að fylgja.

Töflur.  Töflur ber að hafa svo einfaldar sem mögulegt er og forðast skal mjög stórar töflur. Númera skal töflurnar „Tafla 1“ o.s.frv. og láta titil eða stuttan skýringartexta fylgja. Númer og texti standi ofan töflunnar.

Skýringarmyndir, kort og ljósmyndir.  Skila má skýringarmyndum eða kortum á pappír eða á stafrænu formi, og sé þess þá gætt að upplausn sé viðunandi. Gæta ber þess að nota letur sem er læsilegt í þeirri stærð sem myndin skal birtast í. Ljósmyndir sem birta á skulu vera skarpar. Skila má skyggnu, pappírseintaki, filmu eða stafrænni ljósmynd. Númera skal allt myndefni, „Mynd 1“ o.s.frv., og láta titil eða stuttan skýringartexta fylgja hverri mynd. Númer og texti standi neðan myndarinnar.

Tilvísanir til heimilda. í texta Í fræðilegum greinum skal vísað til heimilda samkvæmt almennum kröfum í landfræði. Í texta skal getið nafns höfundar og ártals greinar, ásamt blaðsíðutali ef ástæða er til. Sé höfundur sem vitnað er til íslenskur skal birta bæði fornafn og eftirnafn. Sé höfundurinn erlendur skal einungis birta eftirnafn. Séu höfundar tveir skal beggja getið, en séu þeir fleiri skal einungis fyrsti höfundur nefndur og síðan ritað „o.fl.“ á eftir. Dæmi um tilvísanir í texta:
(Guðrún M. Ólafsdóttir 1994, 21)
(Skúlason og Hayter 2001)
(Sigfús Jónsson 1984)
(Cloke o.fl. 1991)

Frágangur heimildaskrár. Fræðilegum greinum skal fylgja heimildaskrá sem gengið er frá í
samræmi við dæmin hér að neðan. Heimildum er raðað í stafrófsröð eftir nafni höfunda; fornafni Íslendinga en eftirnafni ef um erlendan höfund er að ræða.Dæmi um röðun og frágang í heimildaskrá:

Cloke, P., C. Philo & D. Sadler 1991: Approaching Human Geography: An Introduction to Contemporary Theoretical Debates. London: Paul Chapman Publishing.

Guðrún M. Ólafsdóttir 1994: Frúin frá Vín og Íslendingar á miðri 19. öld. Í: Elín Bára Magnúsdóttir og Úlfar Bragason (ritstj.), Ímynd Íslands: Ráðstefna um miðlun íslenskrar sögu og menningar erlendis. Reykjavík: Stofnun Sigurðar Nordals. Bls. 19–33.

Skúlason, J. B. & R. Hayter 1998: Industrial location as a bargain: Iceland and the aluminium multinationals 1962–1994. Geografiska Annaler 80 B(1): 29–48.

Sigfús Jónsson 1984: Sjávarútvegur Íslendinga á tuttugustu öld. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Neðanmálsgreinar. Nota má neðanmálsgreinar til frekari skýringa eða útlistana, en þeim skal stillt í hóf. Ekki skal nota neðanmálsgreinar til að vísa til heimilda.