Aðalfundur 2010

Aðalfundur Félags Landfræðinga 5.mars 2010

– haldinn á Veitingastaðnum Horninu, Reykjavík kl. 19

– mættir voru auk allra stjórnarmeðlima 8 félagsmenn.

Fundurinn var löglega boðaður og farið var yfir hefðbundna dagskrá auk 3 annarra mála. Formaður var fundarstjóri og fórst það vel úr hendi.

    Formaður fór yfir ársskýrslu sem var samþykkt með þeirri viðbót að bar á nýnemakvöldi hafi verið opinn meðan enn var öl í keyptum kútum.

Þegar hér var komið við sögu var snæddur dýrindis kvöldmatur à la Hornið.

    Gjaldkeri fór yfir ársreikninga sem voru undirritaðir af endurskoðendum félagsins.

Það er tap á rekstri félagsins fyrir árið 2009 um rúmlega 111 þús. Eignastaða er samt ágæt því félagið á enn milli 6-700 þús. Á næsta ári ættu póstburðagjöld að falla niður þar sem landpósturinn er nú sendur út rafrænt og munu stórar fjárhæðir sparast þess vegna (93 þús. árið 2008). Ákveðið var að leita að bestu kjörum í bönkum vegna þjónustugjalda. Einnig var ákveðið að reyna að selja Landabréfið til bókasafna.

Ársreikningar samþykktir.

    Kjör stjórnar, Bjössi og Stefanía eru að hefja sitt annað ár og eru því ekki í framboði. Engar tilnefningar bárust í hinar stöðurnar og voru allir því endurkjörnir. Endurskoðendur voru einnig endurkjörnir.

    Lagabreytingar þetta árið var ein. Grein 7 hljómar eftir breytingu svona

„ Á fundum félagsins ræður afl atkvæða úrslitum mála. Þó verður lögum þess eigi breytt nema á aðalfundi og því aðeins að 2/3 fundarmanna samþykki breytinguna. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn skriflega eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan aðalfund og skulu þær birtar á heimasíðu og sendar rafrænt til félagsmanna 5 dögum fyrir aðalfund og síðan teknar formlega fyrir á fundinum.

    Starfið framundan

        Fjölskyldudagur verður 5. Júní 2010. Tillaga að breyta nafni dagsins í „Útivistardag Félags Landfræðinga“ til að útiloka ekki barnlausa landfræðinga.

Hugmynd að hafa þetta með sama sniði og í fyrra. Gönguferð í Esjuhlíðum, gufa og grill. Hafa jafnvel 2 göngur í boði, eina stutta og eina langa. Mögulega að útbúa ratleik.

        Vorþing. Þema þessa árs verður fræðigreinin kortagerð (ekki vefsjár). Hugmynd að tala við Góa, Hans, Írisi á Samsýn, Ingibjörgu HÍ, Árna Vésteins og jafnvel auglýsingastofur. Stefna að 12. maí kl 9-13 í Þjóðarbókhlöðunni og hafa þetta með sama sniði og síðustu 2 ár. Þurfum að fara að kalla út eftir erindum.

Önnur mál

    Borga árgjald í IGU. Þar sem ársreikningar skiluðu tapi og árgjaldið næmi um 15% af heildarfélagsgjöldum var þessu erindi hafnað. FL er of lítið félag til að greiða svona hátt árgjald auk þess sem ekki var sýnt fram á að við fengjum mikið í staðinn. Allt í lagi að leggja fram þetta erindi síðar ef fjárhagur félagsins vænkast.

    Sesseljuhús við Sólheima. Axel Benediktsson kynnti fyrir okkur Sesseljuhús og bauð FL að taka þátt í samvinnuverkefni sem þar er í gangi. Um er að ræða fræðsluverkefni á vegum Landbúnaðarháskólans og umhverfissetursins Sesseljuhúss. FL gæti auglýst verkefnið og félagsmönnum verði boðið að taka þátt. Axel mun gera auglýsingu sem stjórnin sendir svo út á landpóst.

    Félagsgjöld. Ása Einarsdóttir spurði um heimtur félagsgjalda. Svar stjórnar var að heimtur væru betri en síðustu ár en samt var ákveðið að senda út póst og segja fólki að greiðsluseðlar væru nú komnir í heimabanka og minna fólk á að greiða þá. Sýnileiki félagsins. Karl Benediktsson sagði félagið vera frekar ósýnilegt og því væri mæting á atburði dræm en stjórnin sagðist ekki vita hvernig hún gæti verið meira sýnileg þar sem allir atburðir ársins væru auglýstir og dagsetningar þeirra lægju ætíð fyrir. Lagt var til að heimasíða væri uppfærð reglulegar. Stefanía mun sjá um það en hinir stjórnarmeðlimir verða að minna hana á það. Skráning nýnema. Það hafa allt of fáir landfræðingar útskrifaðir eftir 2002 skráð sig í félagið. Við munum aftur taka upp það kerfi að senda formlegt bréf til útskrifaðra nemenda og bjóða þeim að skrá sig í félagið.